Það er óhætt að segja að keppnisfólk Keilis hafi verið í eldlínunni í dag. Fyrr í dag tóku stelpurnar 2 titla í 16-18 ára og 15 ára og yngri, svo sannarlega glæsileg frammistaða hjá stelpunum á Selsvelli á flúðum. 16-18 ára liðið fór í 3 liða bráðabana um gullið og var það Anna Sólveig og Sara Margrét sem gerðu sér lítið fyrir og sigruðu á fyrstu holu í bráðabana. 15 ára og yngri voru ekkert að hafa neina spennu í þessu og vann sannfærandi sigur í sínum leikjum.
Strákarnir í 16-18 ára spiluðu um gullið við sveit GKG og strákarnir skiluðu sínu og unnu leikinn 2-1 og þriðji Íslandsmeistaratitillinn dagsins staðreynd. 15 ára og yngri voru með 2 lið í sveitakeppninni og endaði það þannig að Keilir1 vann leikinn um 3 sætið og fékk því brons um hálsinn en Keilir2 endaði í 9 sæti en 18 sveitir tóku þátt og var spilað á Þverárvelli á Hellishólum.
Á Akureyri voru svo öldungasveitirnar í eldlínunni og spiluðu til úrslita í dag og fengu bæði karla og kvennaliðið það erfiða verkefni að glíma við GR um gullið. Því miður þurftu báðar sveitir að sætta sig við silfrið að þessu sinni og var kvennaleikurinn að okkur skilst mjög spennandi. Engu að síður flottur árangur á Akureyri og gullið býður betri tíma.
Golfklúbburinn Keilir er stoltur af árangri allra sveita í ár og síðasta helgi skilaði líka vel af sér, 1 Íslandsmeistaratitill í karlaflokki og hársbreidd frá gullinu í kvennaflokki. Þessi árangur hjá okkar fólki á 2 vikum einstaklega glæsilegur og sýnir enn og aftur hversu öflugur okkar félagsskapur er. Við viljum alltaf vera í fremstu röð og setjum miklar kröfur til okkar afrekshópa sem enn og aftur sýna dugnað sinn og vilja til að skara fram úr.
Til hamingju Keilir með einstakan árangur í sveitakeppnum GSÍ í ár.