Klukkan 6:40 í morgun ræsti sögulegur hópur af stað í meistaraflokki karla. Þar voru á ferðinni þrír feðgar og mætir Keilisfélagar; þeir Benedikt Sveinsson, Sigurbergur Sveinsson og Sveinn Sigurbergsson.
Fréttaritara Keilis á Hvaleyrarholti er ekki kunnugt um að þrír feðgar hafi áður ræst út á sama rástíma í meistaraflokki Meistaramóts klúbbsins og jafnvel þó víðar væri leitað.
Yngsti fjölskyldumeðlimurinn, Benedikt, skaut þeim eldri ref fyrir rass og kom í hús á 75 höggum sem skilar honum í 3. sæti meistaraflokks að loknum fyrsta degi. Sá “gamli” kom þar næstur á 80 höggum en handboltakappinn Sigurbergur var slakastur þeirra feðga og endaði á 83 höggum. Þess skal þó getið að lognið fór óvenju hratt yfir Hvaleyrarholtið í morgun og lentu margir kylfingar í vandræðum þess vegna.
Á meðfylgjandi mynd má sjá feðgana þrjá að loknum hring, frá hægri: Sigurbergur Sveinsson, Sveinn Sigurbergsson og Benedikt Sveinsson