Mánudaginn næstkomandi á aðalfundi klúbbsins verð ég í framboði til stjórnar golfklúbbsins Keilis.

Ég er giftur Ingibjörgu Ólafsdóttur og saman eigum við 3 stráka, tvíburana Ólaf Andra og Þór Breka og 6 ára orkuboltann Heiðar Bjarka.  Ég útskrifaðist sem tölvunarfræðingur árið 2000 frá Háskólanum í Reykjavík, en áður hafði ég lokið kerfisfræði frá Kaupmannahöfn .  Síðustu 19 ár hef ég starfað við forritun og verkefnastjórnun í hugbúnaðargerð.  Núverandi vinnustaður er Wise ehf.

Ég kynnist golfi frekar ungur, í kringum 8 ára aldur þegar æskufélagi minn mætti einn dag með 2 kylfur í stað fótbolta á Óla Runstún.  Í kringum 1980 héldum við félagarnir okkar fyrsta og eina golfmót á „glæsilegum“ velli á túninu þar sem vallarstjórinn og pabbi minn sá um slátt á flötum. Handbolti og svo körfubolti tóku við sem aðal íþróttir hjá mér fram yfir tvítugt, en ég gekk í Keili um aldamótin og hef ekki horft til baka síðan.  Í dag er golf í mínum huga lífsstíll þar sem saman koma heilbrigði hreyfing sem er ekki síst félagslega og andlega þroskandi.

Áhugasvið mín á golfinu liggja víða.  Synir mínir hafa verið að æfa hjá klúbbnum undanfarin 6 ár og því stendur barna- og unglingastarfið nærri mér.  Einnig hef ég spilað talsvert golf með bæði eldri og yngri, styttra eða lengra komnum og tel mig því hafa ágæta innsýn inn í þarfir ólíkra hópa.  Ég sat í foreldraráði Keilis 2008-2010 og tók að mér dómgæslu sem héraðsdómari hjá klúbbnum sumarið 2010.

Mér þætti það mikill heiður ef þið treystuð mér til að viðhalda því góða starfi sem unnið hefur verið undanfarin ár og áratugi hjá klúbbnum og bæta þar sem þarf til að gera okkar góða klúbb enn betri.

Með kærri kveðju,

Davíð Arnar Þórsson