Sextánda holan er skemmtileg par þrjú hola sem marga dreymir um að klára á einu höggi. Teigurinn er nokkru hærri en flötin sem er afar heppilegt þar sem rétta höggið er hátt með litlu rúlli. Flötin er mjög smá með bröttum kanti fyrir aftan og hægra megin. Fyrir framan og vinstra megin við flötina eru glompur og fyrir aftan er grasrenna þaðan sem erfitt getur verið að ná góðu vippi. Aftan við grasrennuna er fjaran sem ætti að sjá til þess að kylfingar séu ekki of gráðugir í teighögginu.