Gísli Sveinbergsson Keilismaður gerði sér lítið fyrir og sigraði í flokki 15-18 ára drengja á US Kids European Championship mótinu sem lauk í dag á Luffness golfvellinum í Skotlandi. Gísli lék lokahringinn á 74 höggum tveimur höggum yfir pari. Samtals lék Gísli á 221 höggi eða fimm höggum yfir pari og varð tveimur höggum á undan Jim de Heij frá Hollandi og Daniel Pamlquist frá Svíþjóð.

„Ég er er mjög sáttur með sigurinn. Ég var búinn að æfa vel fyrir þetta mót og mætti mjög skipulagður til leiks,“ sagði Gísli í samtali við Kylfing.is skömmu eftir mótið. „Ég sló ekki eitt högg í mótinu með dræver. Ef þú misstir boltann út fyrir brautina þá varstu búinn að tapa höggi því það var svo hár kargi. Ég sló því aðallega með járni af teig. Brautirnar eru mjög harðar þannig að boltinn rúllaði mikið.“

Óhætt er að segja að sigurinn sé mikill áfangi fyrir Gísla. Flestir kylfingarnir í mótinu voru forgjafalægri en Gísli sem er með 2,3 í forgjöf. „Ég hafði ekki spilað með neinum áður en margir af þeim litu út fyrir að vera mjög góðir og flestir með lægri forgjöf en ég,“ segir Gísli. „Ég gerði eiginlega engin mistök í mótinu og spilaði upp á parið á hverri braut. Ég var mjög góður í púttunum og hitti margar brautir. Það var lykill að sigrinum.“

Keilir óska Gísla innilega til hamingju með þenna glæsilega árangur.

Heimild:
kylfingur.is