Kristján Þór Einarsson er klúbbmeistari Golfklúbbsins Keilis eftir ótrúlegan lokadag í Meistaramóti klúbbsins. Kristján Þór lagði Axel Bóasson af velli í ævintýralegum bráðabana um sigurinn og tryggði sér titilinn.

Kristján Þór setti nýtt vallarmet á Hvaleyrarvelli í dag er hann lék á 62 höggum eða níu höggum undir pari. Kristján bætti fyrra vallarmet af hvítum teigum um eitt högg en það met átti Auðunn Einarsson frá árinu 2008. Kristján náði í kjölfarið að lauma sér í efsta sætið í mótinu og lauk leik á samtals sex höggum undir pari. Axel lék á 71 höggi í dag eða á pari og lauk leik einnig á sex höggum undir pari. Rúnar Arnórsson fann sig ekki í dag og lék á 77 höggum eða sex höggum yfir pari. Hann kastaði um leið frá sér sigrinum í mótinu og varð að sætta sig við þriðja sætið á fimm höggum undir pari.

Kristján og Axel fóru í sannkallaðan maraþon-bráðabana um sigurinn. Fyrst fóru þeir í þriggja holu umspil þar sem þeir voru jafnir á einu höggi undir pari. Leika þurfti sjö holur í bráðabana til að knýja fram sigurvegara og það gerði Kristján loks á 10. braut eftir að hann fékk par en Axel skolla. Um 150 áhorfendur fylgdust með einvígi þeirra félaga og fór dagskrá lokahófs Keilis öll úr skorðum vegna bráðbanans.

Í kvennaflokki fagnaði Tinna Jóhannsdóttir góðum sigri. Hún lék samtals á 287 höggum eða þremur höggum yfir pari og varð tveimur höggum betri en Signý Arnórsdóttir sem varð önnur. Þórdís Geirsdóttir varð þriðja. Nánari úrslit má finna á golf.is.

Lokastaða efstu kylfinga í m.fl. karla í Meistaramóti Keilis:
1. Kristján Þór Einarsson GK 73-72-71-62=278 -6
2. Axel Bóasson GK 67-72-68-71=278 -6
3. Rúnar Arnórsson GK 66-69-67-77=279 -5
4. Gísli Sveinbergsson GK 72-76-67-68=283 -1
5. Sigurþór Jónsson GOS 73-72-76-68=289 +5

Lokastaða efstu kylfinga í m.fl. kvenna í Meistaramóti Keilis:
1. Tinna Jóhannsdóttir GK 70-73-71-73=287 +3
2. Signý Arnórsdóttir GK 73-74-69-75=291 +7
3. Þórdís Geirsdóttir GK 79-78-83-85=325 +41

Heimild: kylfingur.is