Þá er komið að degi 3 hjá mörgum flokkum og spennandi keppni framundan. 167 keppendur eru að spila í dag og væntanlega munu margir slá í gegn og ganga sáttir frá borði og vonum við að það eigi við sem flesta kylfinga í dag. Fréttaritari heimasíðunnar kýs að kalla þennan dag “Moving Day” þar sem veðrið gæti sett sitt mark á daginn og margir muni færast upp töfluna á meðan aðrir færast niður. Regngallinn mun væntanlega koma að góðum notum í dag ef marka má spá veðurfræðinga.
Í meistaraflokki karla leiðir Birgir Björn Magnússon með 8 högga forystu og í meistaraflokki kvenna er Þórdís Geirsdóttir að leiða einnig með 8 höggum og eflaust á reynsla hennar eftir koma vel að notum í dag.
Töluverð spenna er í 1.fl.karla þar leiðir Kristján Kristjánsson með 3 höggum og eru margir að sækja á hann svo þarna gæti skapast einhver dramatík í dag. Í 1.fl.kvenna eru þær Bryndís María Ragnarsdóttir og Högna Kristbjörg Knútsdóttir jafnar á 161 höggi. Að vanda er 2.fl.karla einn sá stærsti í meistaramóti Keilis og þar leiðir Ívar Jónsson en mjög hörð barátta er um efsta sætið. Einnig er spenna í 2.fl.kvenna og leiðir Valgerður Bjarnadóttir með 2 höggum.
Í öldungaflokki karla með forgjöf 0-15 eru jafnir þeir Pétur Valberg Sigurðsson og Kristján V.Kristjánsson eftir fyrsta dag á 77 höggum. Þorbjörg Jónína Harðardóttir leiðir svo Öldungaflokk kvenna með forgjöf 0-18.
Veður var mjög gott í gær en það er ekki eins góð spá í dag og gæti það sett strik í reikninginn hjá mörgum keppendum. Það er því líklegt að miklar sviptingar gætu orðið í dag og staðið undir nafni sem “Moving Day”. Heimasíðan óskar öllum góðs gengis og hvetur alla að koma með jákvætt hugarfar og brosa sínu breiðasta í dag:) Við viljum einnig minna á að allar myndir er hægt að skoða á Facebook síðu golfverslun Keilis. http://www.facebook.com/Golfverslun