Laugardaginn 21.apríl n.k. munu 6 stúlkur úr Golfklúbbnum Keili hefja leik á Opna Írska undir 18 stúlknamótinu. Stúlkurnar munu þar etja kappi við 70 stúlkur frá; Frakklandi, Skotlandi, Írlandi, Englandi, Svíþjóð, Þýskalandi og Noregi. Fyrirkomulag mótsins er þannig að á Laugardeginum eru spilaðar 36 holur. Á Sunnudeginu spila síðan þær 50 sem lægstu skori náðu á Laugardeginum. Hluti af mótinu er jafnframt landskeppni þar sem 2 bestu skor hverjar 3 manna sveitar telja.

 

Stúlkurnar; Anna Sólveig Snorradóttir, Hildur Rún Guðjónsdóttir, Saga Ísafold Arnarsdóttir,Högna Kristbjörg Knútsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Sara Margrét Hinriksdóttir, hafa æft af kappi í vetur undir styrkri stjórn þjálfara sinna, Björgvins, Sigurpáls og Jóhanns. Ásamt landsliðsæfinga hjá nýjum landsliðsþjálfara Úlfari Jónssyni. Stúlkurnar tóku jafnframt allar þátt í æfingaferð GK í mars s.l. á Spáni. Markmið stúlknanna eru að sjálfsögðu mismunandi en þátttaka í mótinu mun verða þeim öllum dýrmæt reynsla og góður undirbúningur fyrir komandi sumar.

 

Ferðin er farin með dyggum stuðningi GSÍ og Golfklúbbsins Keilis. Hlutaðeigandi vona að þetta sé einungis eitt af mörgum golfmótum sem íslenskir unglingar munu taka þátt í á næstu árum enda nauðsyn þess ljós að íslenskir kylfingar hljóti reynslu meðal jafnaldra í öðrum löndum.

 

Hér að neðan má sjá krækju inn á heimasíðu mótsins:

 

http://www.ilgu.ie/championship_details.asp?id=152&area=1&type=0

 

Stjórn golfklúbbsins óskar þeim góðs gengis í mótinu.