Rúnar Arnórsson úr Keili hafnaði í 24. sæti á Irish Amateur Open Championship mótinu sem lauk í gær á Royal Dublin vellinum í Írlandi. Rúnar lék tvo hringi í gær og lék hringina á 73 og 76 höggum. Alls lék Rúnar á 301 höggi í mótinu eða 13 höggum yfir pari.

Þrír kylfingar urðu jafnir í efsta sæti á samtals sjö höggum yfir pari. Robbie Cannon hafði betur í bráðabana um sigurinn. Aðstæður voru erfiðar í mótinu en vindur gerði kylfingum erfitt fyrir. Besti hringurinn í mótinu var sem dæmi 69 högg eða þrjú högg undir par.

Rúnar spilaði nokkuð jafn golf í mótinu og er árangur hans í mótinu ágætur. Hann varð í öðru sæti í Íslandsmótinu í höggleik á síðasta ári og kemur greinilega í ágætu formi inn í nýtt keppnistímabil.