Nú er komið að hinum árlega „Masters fiðringi“.  Sjúkdómseinkenni eru vel þekkt.  Kylfingar fara að sjást í golfbúðum að skoða græjur og kylfur jafnvel þvegnar, uppáhalds tíglasokkarnir mögulega straujaðir.  Annað vel þekkt einkenni er að þefa uppi vallarstjórann sinn og spyrja „hvernig kemur‘ann undann?“

Þennan apríl mánuð eru þeir vandfundnir sem orðið hafa fyrir álíka spurningaflóði einsog vallastjórar landsins… Mögulega SDG og BB, en það er mjótt á mununum.

Margur kylfingurinn saup kveljur í janúar og febrúar, horfandi upp á klaka hvurt sem augað eygði.  Vissulega var veturinn erfiður og minnti óþægilega á klakaveturinn 2014.  Til allra lukku þá var þíða seinni hluta í janúar sem gerði gæfumuninn.  Heilt yfir lítur völlurinn mjög vel út.

Við erum því nokkuð brattir þegar þetta er skrifað og búumst við góðu golfvori.

Það verður í nægu að snúast hjá vallarstarfsmönnum þetta vorið.  Fyrir utan almennt viðhald á golfvöllunum okkar, þá verður rík áhersla lögð á að klára nýju holurnar á Hvaleyrinni.  Við þurfum að vera búnir að sá í öll svæði ekki seinna en um miðjan júní.  Það verður því mikið um að vera hjá okkur í vor og snemma sumars.

Við viljum svo minna kylfinga á það, sem sitja heima um helgina og horfa á Augusta National golfvöllinn í allri sinni dýrð, að við búum á Íslandi.

Kv. Bjarni Þór, vallastjóri