Hvetjum alla til að mæta á völlinn og styðja við Tinnu sem er að hefja leik í úrslitum á Íslandsmótinu í holukeppni.

Tinna okkar Jóhannsdóttir  og Karen Guðnadóttir úr GS leika til úrslita á Íslandsmótinu í holukeppni í kvennaflokki á Securitasmótinu á Eimskipsmótaröðinni. Tinna og Karen hafa ekki sigrað á þessu móti og verður því nýr Íslandsmeistari krýndur síðdegis í dag.

Systurnar Karen og Heiða Guðnadætur léku í undanúrslitum þar sem Karen sigraði 4/3. Karen er í Golfklúbbi Suðurnesja en Heiða er í Kili Mosfellsbæ.  Karen mætir Tinnu Jóhannsdóttur úr Keili sem sigraði Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur úr Keili  2/1.

Kristján Þór Einarsson úr Kili og Bjarki Pétursson úr GB leika til úrslita á Íslandsmótinu í holukeppni – Securitasmótinu. Kristján Þór hafði betur gegn Haraldi Franklín Magnús úr GR í undanúrslitum 2/1. Bjarki lagði Stefán Má Stefánsson úr GR á 20. holu í bráðabana.

Kristján Þór, GKj. tryggði sér sigur gegn Haraldi Franklín Magnús á 17. flöt. Upphafshögg Kristjáns fór í stöngina en höggið var um 250 metra langt en brautin er par 4. Glæsilegt högg hjá Kristjáni sem rétt missti púttið fyrir erninum en hann fékk fugl. Haraldur Franklín náði ekki að setja niður púttið fyrir fugli og þar með var leiknum lokið með 2/1 sigri Kristjáns.

Viðureign Bjarka Péturssonar úr GB og Stefáns Más Stefánssonar úr GR var gríðarlega spennandi. Stefán Már náði að jafna við Bjarka á 18. flöt eftir mikið ævintýri. Stefán sló þriðja höggið „örvhent“ úr erfiðri stöðu og boltinn endaði um 15 metra frá holunni. Stefán gerði sér lítið fyrir og setti púttið ofaní fyrir pari og viðureignin fór í bráðabana. Þar hafði Bjarki betur á 20. holu.

Úrslitaleikirnir hefjast kl. 12.30 á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. Hér má sjá úrslit úr leikjum mótsins: