Þá má með sanni segja að allir séu komnir á Facebook og ekki sitja vallarstarfsmenn Keilis þar eftir. Þeir hafa sett upp skemmtilega síðu þar sem fylgjast má með hinum ýmsu hlutum sem koma á daginn hjá þeim við daglegt viðhald golfvallarins. Í nýjustu færslu sinni kynna þeir nýja meðlimi í starfsliðinu. Þeir sem vilja fylgjast með störfum vallarstarfsmanna okkar á Faceinu þá er hægt að smella hér.

Hér eftir kemur skemmtileg færsla hjá þeim á síðunni:

Jæja kominn tími á status! Með vorinu sem virðist hafa fundið okkur er best að kynna til leiks nýja starfsmenn Keilis!

Fyrir áramót tók til starfa Arnaldur Freyr Birgisson. Hann er menntaður í golfvallafræðum frá Elmwood í Skotlandi, hefur góða reynslu af starfinu, er mikill og góður liðsmaður. Hann hefur strax sannað sig sem sterk viðbót í starfsliðið!

Í febrúar tók til starfa Birgir Gunnlaugson sem yfirmaður vélaflota Keilis. Birgir er úr Hafnarfirði og smellpassar í starfið. Hann er vélvirki að mennt og hlakkar okkur mikið til að sjá Bigga takast á við starfið með hækkandi sól!

Og síðast en ekki síst skal kynna yngsta liðsmann Keilis, Skugga.
Skuggi er 6 mánaða labrador/íslenskur hundur sem er ALLTAF jafn spenntur fyrir vinnudeginum. Hann er ljúfur og góður og elskar öll farartæki, hvort sem það er golfbíll eða beltagrafa…