Samtök Íþrótta- og Golfvallarstarfsmanna á Íslandi (SÍGÍ) kunngerðu nýlega val á golfvallar- og knattspyrnuvallastjórum ársins, en þetta er í þriðja sinn sem valið fer fram. Þar velja landsdómarar, formenn golfklúbba innan GSÍ og afrekskylfingar þann golfvallarstjóra landsins sem þeim þótti standa uppúr á árinu. Í flokki knattspyrnuvallastjóra sjá dómarar í efstu tveim deildum landsins og þjálfarar karla og kvennaliða í sömu deildum.

Í flokki golfvallarstjóra hlaut vallarstjóri okkar Keilismanna, Bjarni Þór Hannesson titilinn Vallarstjóri ársins. Kosningin að þessu sinni var nokkuð afgerandi og ljóst að kylfingum þótti ástand Hvaleyrarvallar með besta móti þrátt fyrir erfitt tíðarfar.

Þetta er í annað sinn sem Keilir hlýtur titilinn, en Daniel Harley varð þess heiðurs-aðnjótandi að krækja í bikarinn fyrsta árið sem valið fór fram. Á síðasta ári hlaut Ágúst Jensson nafnbótina fyrir Korpúlfsstaðarvöll, en landsmót fór þar fram um sumarið. Hvaleyrarvöllur varð þó í öðru sæti það árið, svo að árangurinn var ekki slæmur.

Í flokki knattspyrnuvallastjóra hlaut Krisinn Jóhannsson titilinn fyrir frábært ástand Laugardalsvallar. Kristinn hefur þar með unnið titilinn þrjú ár í röð og er því eini aðilinn sem hlotið hefur þá nafnbót.
Við óskum Bjarna og öllum starfsmönnum vallarins til hamingju með árangurinn. Svona titlar vinnast ekki út á einstaklingsframtakið. Það voru 19 starfsmenn sem komu nálægt viðhaldi Hvaleyrarvallar á síðasta ári. Það eiga því margir sinn hluti í nafnbótinni Vallarstjóri ársins 2014.