Íþróttastarf Keilis

Almennt um Íþróttastarfið (tekið úr skýrslu Íþróttastjóra Keilis)

Hjá Keili fer fram öflugt íþróttastarf þar sem að allir geta fundið æfingar og þjálfun við sitt hæfi. Golfklúbburinn Keilir er fyrirmyndarfélag ÍSÍ frá því í vor.

Úr kynningaefni um fyrirmindarfélag ÍSÍ
“Íþróttahreyfingin gerir kröfur til samfélagsins um stuðning, bæði aðgang að mannvirkjum og beinan fjárstuðning. Íþróttahreyfingin vill að litið sé á þennan stuðning sem endurgjald fyrir þjónustu sem hún veitir öllum þegnum samfélagsins.

Til þess að slíkar kröfur séu trúverðugar og réttlætanlegar þarf íþróttahreyfingin að sýna það í verki að hún geri raunhæfar kröfur til sjálfrar sín hvað varðar gæði og innihald þess starfs sem hún vinnur. Þetta hefur hún gert með samþykkt stefnuyfirlýsinga um afmarkaða málaflokka, þar sem fram kemur að hvernig starfi sé stefnt. Slíkar stefnuyfirlýsingar hafa m.a. verið samþykktar um barna-og unglingastarf, menntun þjálfara og forvarnastarf.

Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög eða deildir sótt um viðurkenningu til ÍSÍ miðað við þær gæðakröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ og geta kallað sig fyrirmyndarfélag ÍSÍ.“

Sú vinna um barna- og ungmennastarf Keilis er afrakstur stefnumótunarvinnu  sem unnin var undir forystu Karls Ómars Karlssonar íþróttastjóra Keilis og PGA kennara hjá golfklúbbnum í samvinnu við Björgvin Sigurbergsson yfirþjálfara og  íþróttanefnd klúbbsins og foreldraráð Golfklúbbsins Keilis.

Unnið var eftir stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um barna- og unglingastefnu. Golfklúbburinn Keilir starfar eftir þeirri stefnu í hvívetna.Einnig var höfð til hliðsjónar stefna ÍBH og ÍSÍ í íþrótta og afreksmálum.

Við viljum alltaf gera gott starf betra og halda því við sem golfklúbburinn Keilir er þekktur fyrir, frábæran árangur, besta golfvöll á Íslandi og góða aðstöðu til golfiðkunar.

Helstu íþróttaleg markmið í barna og ungmennastarfi klúbbsins

 • Skipuleg og markviss þjálfun geti skapað börnum og unglingum færi á því að verða kylfingar alla ævi.
 • Jafnframt er gert ráð fyrir því að þau sem það vilja velji sér afreksstefnu til að æfa eftir þannig að þau geti orðið afreksmenn seinna meir.
 • Golfiðkun skal vera þroskandi líkamlega, félagslega og sálrænt. Með því móti skapast aðstæður fyrir mun fleiri börn og unglinga að njóta sín og æfa golf hjá Keili.
 • Ráða til sín vel menntaða þjálfara.
 • Þjálfun barna á við um börn 12 ára og yngri, en þjálfun ungmenna við einstaklinga á aldrinum 13 ára og til og með 20 ára.

Þjálfarar munu kappkosta að gera starfið skemmtilegt og að það spyrjist út meðal krakka og ungmenna að það sé gaman í golfi.

Félagsleg markmið

 • Helsta markmið starfsins er að gefa öllum jöfn tækifæri til að stunda golf. Öll börn og unglingar sem vilja stunda íþróttir til þess að svala félagsþörf sinni fái að stunda golf við sitt hæfi.
 • Það er markmið stjórnar GK að hver og einn félagsmaður verði stoltur að því að vera félagsmaður í golfklúbbnum Keili, félagsstarfið verði blómlegt og hann geti stundað golf eins og honum hentar í fallegu umhverfi á einum besta velli landsins.
 • Fjölga félögum í starfinu með kynningum á golfíþróttinni í leikskólum og grunnskólum í Hafnarfirði.
 • Koma í veg fyrir brottfall.

Félagslegi þátturinn má alls ekki gleymast í þjálfuninni. Til þess að hópurinn kynnist og samlagist betur þurfa þau einnig að hittast utan æfinga til að bæta andann í hópnum. Það er hægt að gera á ýmsan hátt. Það er hægt að fara í æfingaferðir, bíó, keilu, sund og fleira auk þess sem hægt er að hafa DVD/Video kvöld, borða pizzu saman eða hafa spilakvöld. Oft þarf að gera eitthvað í þessum dúr til þess að einstaklingum líði vel og þeim finnist þeir vera hluti af hópnum.

Það má ekki gleyma því að margir iðkendur eru í golfi nær eingöngu upp á félagsskapinn og það ber að virða það.

Þjálfarar Keilis skulu því vera vakandi fyrir því að rækta félagslega þáttinn í þjálfuninni og reyna þannig að auka ánægju iðkenda.

Markmið með félagsstarfinu hjá Keili

 • að vekja, hlúa að og efla áhuga kylfinga fyrir þroskandi félagsstarfi
 • að miða félagsstarf við þarfir og samkennd iðkenda
 • að gefa iðkendum tækifæri til að takast á við ný og fjölbreytt viðfangsefni
 • að auka samvinnu og hópvinnu
 • að fræða
 • að auka virðingu fyrir reglum og siðum

Þjálfarar hjá Golfklúbbnum Keili

Björgvin Sigurbergsson er yfirþjálfari Keilis. Hann útskrifaðist árið 2009 frá íslenska golfkennaraskólanum. Hann er gamall afrekskylfingur klúbbsins og  hefur orðið fjórfaldur Íslandsmeistari í golfi auk þess að hafa verið landsliðsmaður í golfi í mörg ár.Björgvin hefur þjálfað og kennt golf í mörg ár og hafa margir afreksskylfingar GK verið þjálfaðir af honum.Björgvin Sigurbergsson er aðstoðarþjálfari hjá Jussa Pitkanen afreksstjóra GSÍ.

Karl Ómar Karlsson er íþróttastjóri Keilis og menntaður PGA golfkennari frá Svíþjóð. Kalli er kennaramenntaður og hefur hann lagt sig fram um að mennta sig sem allra mest í viðbót við sína menntun. Kalli er formaður PGA á Íslandi sem eru golfkennarasamtök. Einnig er hann í skólanefnd golfkennaraskólans sem sér um allt nám golfkennara á Íslandi.

Karl Ómar útskrifaðist frá sænska golfkennaraskólanum árið 2003. Hann hefur unnið við golfkennslu og þjálfun í mörg ár eða frá árinu 1985 á hinum ýmsu sviðum íþróttarinnar. Hann er einnig með héraðsdómararéttindi í golfi. Hann hefur einnig starfað við ýmis verkefni og þjálfun á vegum Golfsambands Íslands.
Kalli og Björgvin sjá um alla þjálfun og kennslu hjá  börnum og ungmennum, afreks- og afreksefnakylfingum golfklúbbins auk þess að kenna félagsmönnum golfklúbbsins.Íþróttastarf er uppeldisstarf. Þar læra börn og unglingar og aðrir kylfingar að fylgja settum reglum og tileinka sér hollar lífsvenjur.

Íþróttaþjálfarar og foreldrar hafa því mikilvægu uppeldishlutverki að gegna. Mikilvægt er að þau séu meðvitaðir um þetta hlutverk og séu vel undir það búnir. Allt sem þeir segja og gera felur í sér skilaboð til krakkana.

Skýr stefna er mikilvægt verkfæri til að ná sem bestum árangri bæði á sviði golfíþróttarinnar og við uppeldisstarf.

Barna og ungmennastarf

Hægt er að æfa golf 2-3x í viku í 11 mánuði á ári. Auk þess er boðið upp á aukaæfingar fyrir þá kylfinga sem það vilja. Allar upplýsingar um félagsgjöld og æfingatöflu er hægt að skoða inn á keilir.is/íþróttastarf.

Keppnir barna og unglingaÍ sumar voru leikæfingar einu sinni í viku og fengum við aðstoð frá afreksefnakylfingum yngri kylfingum til aðstoðar úti á velli. Auk þess voru haldin nokkur mót á Sveinskotsvelli.

Við tókum þátt í krakkamóti PGA á Íslandi. Mótið er eftir bandarískri fyrirmynd og leika kylfingar saman  í liðum. Tókst vel til í þessum mótum.

Í júní vorum við með opna U.S.Kids Golfkrakkamót. Leiknar voru 18 holur á Hvaleyrarvelli frá grænum og rauðum teigum og tókst það mót mjög vel.

Golfleikjaskóli Keilis og U.S.Kids Golf

Í sumar var golfleikjaskóli Keilis og U.S. Kids Golf starfræktur. Gerður var samningur við Sportcompanýið (U.S.Kids Golf) sem gildir til þriggja ára.

Aldrei hafa fleiri krakkar tekið þátt á þessum námskeiðum og var í sumar og er það vel.

Skólastjóri golfleikjaskólans var Karl Ómar Karlsson íþróttastjóri og honum til aðstoðar voru margir af afreksefnakylfingum Keilis auk annarra aðstoðarmanna.

Markmið skólans er að það er gaman í golfi og að allir eigi að njóta sín. Farið er í þrautir eða leiki sem stuðlar að því að allir hafi gaman af.

Á golfnámskeiðinu er farið yfir alla helstu þætti golfleiksins, reglur og golfsiði á vikulöngum námskeiðum.

Markmið golfleikjanámskeiðanna

 • eru fyrir allar stelpur og stráka á aldrinum 5 til 12 ára
 • að fyrstu kynni af golfi eru jákvæð og það er gaman að leika golf
 • farið verður í helstu þætti golfleiksins, allt frá púttum til upphafshögga
 • leiknar eru nokkrar golfholur á golfvelli- kennsla er gjarnan í formi golfleikja ýmisskonar
 • áhersla er á að kynna helstu golfsiði og golfreglur fyrir nemendum• iðkendur geta verið með á fleiri en einu námskeiði

Hægt er að velja um námskeið frá kl. 9:00 – 11:45 eða kl. 12:30 – 15:15. Haldin eru tvö námskeið á dag í 5 til 7 vikur á hverju sumri.

Hægt er að fá lánaðan golfbúnað meðan á námskeiði stendur.Allir eiga að mæta með hollt og gott nesti.

Krakkarnir kynnast einnig leikjum og æfingum með svokölluðum SNAG búnaði, en hann hentar sérlega vel til að auðvelda iðkendum að ná betri tökum á íþróttinniog að auka skemmtanagildið.

Allir krakkar sem ljúka námskeiðinu fá aðild að Sveinskotsvelli.

Námskeiðum lýkur með pylsuveislu og afhendingu viðurkenningarskjals frá GK.

Afreksstarf

Guðrún Brá Björgvinsdóttir hefur verið meðal fremstu kylfinga landsins í mörg ár og er ein af bestu kvenkylfingum landsins.

Aldrei áður hefur íslensk kona náð jafnt hátt á heimslistanum í golfi meðal áhugamanna og Guðrún Brá. Í dag er hún númer 112 á heimslistanum og er þar með að skrifa nýjan kafla í golfsögu Íslands með árangri sínum.

Sumarið 2017 var mjög gott hjá Guðrúnu og spilaði hún jafnt og gott golf allt sumarið. Guðrún lék bæði á Evrópumóti landsliða og einstaklinga á árinu auk þess að taka þátt í ýmsum verkefnum fyrir hönd Íslands. Hún hefur átt fast sæti í landsliði Íslands í golfi í mörg ár.

Á Íslandi hefur Guðrún Brá verið nær ósigrandi á þeim mótum sem hún hefur getað tekið þátt í og sigrað á þremur mótum og þar af tveimur mótum í röð á Eimskipsmótaröðinni.

Guðrún Brá er Íslandsmeistari í holukeppni  í ár.

Í sumar setti Guðrún Brá vallarmet á heimavelli sínum á Hvaleyrinni er hún lék á 67 höggum eða á fjórum höggum undir pari. Hún endaði mótið í 2. sæti á Íslandsmótinu í höggleik.

Í ár hefur Guðrún Brá leikið mjög vel á erlendri grundu. Hún varð í 4. sæti á Evrópumóti einstaklinga og á opna breska áhugamannamótinu varð hún í 13. sæti.
Í vor vann hún sér inn þátttökurétt inn á NCAA Regionals í Bandaríska háskólagolfinu.

Í haust komst Guðrún Brá áfram á 2. stig þar sem leikið er um að komast inn á Evrópumótaröðina. Það verður án efa mjög spennandi að fylgjast með henni í desember á lokastiginu til að komast inn á sterkustu mótaröð atvinnukylfinga í Evrópu.

Axel Bóasson er einn af bestu kylfinga á Íslandi í dag. Hann leikur sem atvinnumaður í golfi á sínu öðru ári og lék á “Nordic tour” mótaröðinni í ár og stóð sig mjög vel í ár.

Árangur hans árið 2017 er einn sá besti sem atvinnukylfingur frá Íslandi hefur náð. Hann sigraði á tveimur mótum á Nordic Leagu mótaröðinni, auk þess að ná mjög góðum árangri á öðrum mótum og varð að lokum stigameistari mótaraðarinnar.

Það er án efa eitt mesta afrek sem íslenskur kylfingur hefur náð. Aldrei áður hefur íslenskur atvinnumaður í golfi orðið stigameistari mótaraðar.

Fyrir vikið er Axel kominn með keppnisrétt á Áskorendamótaröðina í Evrópu á næsta ári.

Hér heima hefur Axel haldið áfram að leika ótrúlega flott golf í sumar. Hann er Íslandsmeistari í höggleik karla og sigraði einnig á lokamóti Eimskipsmótaraðarinnar í september.

Axel er  án efa ein allra bjartasta von okkar íslendinga í golfheiminum í dag. Hann er gífurlega metnaðarfullur, yfirvegaður, alltaf bjartsýnn og jákvæður.

Team Keilir

Hjá Golfklúbbnum Keili er afreksstarf er nefnist Team Keilir, hugmyndafræði varðandi alla afreksstarfsemi hjá Golfklúbbnum Keili

SAMVINNA – TRAUST – SKIPULAG – EFTIRFYLGNI

Uppbygging afreksþjálfunar á að vera gagnrýnið, uppbyggilegt og umfram allt gagnlegt fyrir alla aðila sem að afreksstarfinu koma.

UNDIRSTÖÐUÞÆTTIR

„Golf er framkvæmd undirstöðuatriða“

 • Geta er framkvæmd undirstöðuþátta leiksins í tengslum við líkamlega-, sálfræðilega- og félagslega þætti.

LEIKFRÆÐILEGIR ÞÆTTIR

„Það eru undirstöðuatriðin sem skila árangri”

 • Leikfræðilegur árangur ræðst af leikskilningi kylfingsins og færni hans í undirstöðuþáttum leiksins.

LÍKAMLEGIR ÞÆTTIR

„Líkaminn er verkfæri íþróttamannsins”

 • Enginn kylfingur með metnað, ætti að vanmeta það að vera í góðu formi.
 • Allir ættu að sjá það í hendi sér hve mikilvægir þessir þættir eru fyrir afrekskylfinginn eða hinn almenna kylfing.

SÁLFRÆÐILEGIR ÞÆTTIR

„Eftir höfðinu stjórnast útlimirnir”

 • Áhugi – metnaður og vinnusemi er forsenda að getu og betri árangri

FÉLAGSLEGIR ÞÆTTIR

„Virðing – kurteisi – gaman”

 • Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
 • Mikilvægt er að geta sett sig í spor annarra.
 • Hafðu áhrif á aðra og umhverfi þitt.

Árangur og landsliðsmál.

Árangur á meðal okkar bestu kylfinga var mjög glæsilegur á árinu sem er að ljúka. Áður hefur verið nefndur árangur þeirra Axels og Guðrúnar Brá. Vikar Jónasson sigraði á tveimur mótum á Eimskipsmótaröðinni í sumar og stóð uppi sem stigameistari GSÍ. Vikar er búinn að leggja mikið á sig við æfingar og er vel að þessum titli kominn.

Þórdís Geirsdóttir varð Íslandsmeistari í golfi í flokki 50 ára og eldri án forgjafar og Kristín Sigurbergsdóttir varð Íslandsmeistari með forgjöf í sama flokki.

Lið Keilis skipuð konum 50 ára og eldri varð Íslandsmeistari félagsliða í sumar.

Liðið var þannig skipað:

Þórdís Geirsdóttir, Anna Snædís Sigmarsdóttir, Kristín Pétursdóttir, Kristín Sigurbergsdóttir, Helga Gunnarsdóttir, Hulda Soffía Hermannsdóttir, Margrét Berg Theódórsdóttir, Kristjana Aradóttir, Margrét Sigmundsdóttir.

Karlasveit eldri kylfinga sigraði í 2. deild og leika á meðal hinn bestu á nýju ári.

Kvennalið Keilis endaði í 2. sæti og karlalið Keilis varð í 4. sæti á Íslandsmóti golfklúbba í sumar.

Hafdís Alda Jóhannsdóttir og Birgir Björn Magnusson urðu klúbbmeistarar á meistaramóti Keilis í sumar.

Landslið

Átta kylfingar frá Keili voru valinn til að taka þátt í ýmsum landsliðsverkefnum fyrir hönd Íslands á árinu:

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Helga Kristín Einarsdóttir, Anna Sólveig Snorradóttir, Þórdís Geirsdóttir, Gísli Sveinbergsson, Henning Darri Þórðarson, Rúnar Arnórsson og Daníel Ísak Steinarsson.

Í ár eru sjö kylfingar  sem eru að æfa golf í háskólum í USA. Þau eru: Rúnar Arnórsson, Gísli Sveinbergsson, Helga Kristín Einardóttir, Gunnhildur Kristjánsdóttir, Sigurlaug Rún Jónsdóttir, Hafdís Alda Jóhannsdóttir og Birgir Björn Magnússon.

Kennsla fyrir félagsmenn

Golfklúbburinn Keilir bauð upp á golfkennslu hjá PGA golfkennurum, námskeið og æfingar fyrir bæði félagsmenn Keilis og fyrir kylfinga í öðrum klúbbum, fyrir einstaklinga, hópa og fyrirtæki.Hægt var að velja um kennslu frá fimm PGA menntuðum golfkennurum.

Hægt er að skrá sig í golfkennslu og athuga hvað er í boði inn á keilirar2018.wpengine.com/golfkennsla

Nýjr félagar í Keili

Karl Ómar og Björn Kristinn Björnsson sáu um námskeið fyrir nýja félaga Keilis í vor. Markmið var að bjóða nýja félaga velkomna og kynna þeim fyrir grunnatriðum í golfi, leik á velli og helstu starfssemi Keilis.

Farið var í grunnatriði í sveiflu, púttum og vippum og síðan var leikið golf á Sveinskotsvelli þar sem kynntar voru helstu reglur og siðir.

Að lokum

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem hafa komið að starfi okkar í ár, öllu starfsfólki Keilis, kylfingum og velunnurum og styrktaraðilum Golfklúbbsins Keilis.

Gæðin segja meira en magnið en alltaf er hægt að gera gott starf betra.

F.h íþróttanefndar
Karl Ómar Karlsson íþróttastjóri Keilis.