Golfvellirnir & viðhald
– Skýrsla vallarstjóra

Opnun Hvaleyararvallar var með sama sniði og síðustu ár, þar sem sjálfboðaliðar tóku höndum saman á Hreinsunardegi og Hvaleyrarvöllur svo opnaður með Hreinsunarmóti daginn eftir. Hreinsunardagurinn í ár var haldinn þann 7. maí og almenn opnun á vellinum þann 9. Vellirnir komu vel undan vetri og hófst tímabilið með hvelli.

Maímánuður var góður í ár. Vellirnir voru í góðu standi og lítið um skemmdir eftir veturinn.

Veður var óvenju gott og mikil ásókn á vellina, sem höfðu þornað og voru vel í stakk búnir til að takast á við umferðina. Ákvörðun um frestun opnunar um nokkra daga reyndist aftur vel og þessir fyrstu dagar í gróanda skila sér bersýnilega inn í sumarið.

Veður var áfram gott í júní, meðalhiti og sólskinsstundir voru yfir meðallagi á Höfuðborgarsvæðinu. Mikið golf var leikið í júní en vel tókst þó að halda sliti í lágmarki og voru spilafletir valla okkar í prýðilegu standi þrátt fyrir mikla ásókn.

Eftir góða byrjun á sumrinu fór að halla aðeins undan fæti hjá veðurguðunum.

Júlí var bæði blautur og kaldur og vestanáttir óvenju tíðar, Þrátt fyrir að veður hafi ekki verið upp á sitt besta, var mánuðurinn heilt yfir góður á völlunum okkar. Fyrri hluti mánaðar fór í að undirbúa og halda meistaramót og Hvaleyrarbikar, sem bæði tókust vel til. Eftir Hvaleyrarbikar var meira púður sett í nýframkvæmdir svo hægt væri að sá í svæðin á skikkanlegum tíma.

Haustið var óvenju gott í ár. Í ágúst var veður mjög gott og mikið golf leikið út mánuðinn. Fáar lægðir skullu á okkur í haust og golfvöllurinn því almennt í góðu standi og enn er leikið daglegt golf á vellinum í lok nóvember. Gott veður hefur einnig gefið starfsmönnum tækifæri til að vinna við framkvæmdir og önnur verk sem erfitt er að ynna af hendi á meðan vellir eru þétt setnir. Um miðjan nóvember er Hvaleyrarvöllur enn opinn á sumarflötum og ekki verið lokað vegna næturfrosts síðan í október. Nokkuð einstök staða sem fagnað er af bæði kylfingum og vallastarfsmönnum.

Vellirnir okkar komu mjög vel undan vetri. Helsta vandamálið var hversu blautar sumar brautanna voru. Skemmdir voru nánast engar og því hægt að opna á vellina við góð skilyrði strax í vor. Nýja 12. flötin var þó viðkvæm fyrstu vikurnar og var opnun hennar þvi frestað til mánaðarmóta maí/júní.

Snemma í sumar var ákveðið að loka fremri glompunni á 15. holu. Glompan hefur verið til trafala frá upphafi en vatn safnaðist auðveldlega í henni og ekki var gerlegt að leiða vatn frá henni vegna undirlags. Að öðru leiti einkenndist sumarið af daglegu viðhaldi og baráttu við að halda gæðum í hæsta flokki en minna við viðgerðir. Til að hver aðgerð nýttist sem best var vanalega fylgst með stöðunni á flötunum og mælanlegir hlutir s.s rakastig, vaxtahraði og flatahraði, mældir reglulega og aðgerðum stýrt eftir því.

Viðhald flata einkenndist af tíðum áburðargjöfum með litlum skömmtum í senn. Þannig er hraða flatanna haldið jöfnum yfir tímabilið og hætta á sýkingum og ágengum, óæskilegum grastegundum lágmörkuð. Vatnsmiðlunarefnum var úðað á flatirnar u.þ.b. einu sinni í mánuði til að viðhalda jöfnu rakastigi sem og bæta eiginleika jarðvegsins til að taka við og hleypa vatni í gegn um efstu lög. Vaxtaletjandi efnum var einnig úðað á flatir til að hægja á vexti og þétta grassvörð.

Aukinn kraftur var settur í viðhald brauta, enda flatarsvæði og teigar yfirleitt í góðu ásigkomulagi. Meiri áburður var settur á brautirnar í vökvaformi sem og valdar brautir úðaðar með vatnsmiðlunarefnum. Sáum við töluverðan mun á þeim brautum sem fengu auka umhirðu og mun okkar viðahaldsáætlun miðast við að halda uppteknum hætti næstu ár.

Engin jarðvegssýni voru send til greiningar þetta árið heldur bættum við nauðsynlegum næringarefnum í reglulegar köfnunarefnisgjafir, til að útiloka næringarskort. Jarðvegssýni verða svo tekin næsta vor.

Í heildina fóru eftirfarandi næringarefni á flatir per/ha:

Köfnunarefni 95 kg/ha – Fosfór 11 kg/ha – Kalí 24 kg/ha – Járnsúlfat 20 kg/ha, auk annarra snefilefna.

Hæglosandi áburði var dreift á teiga í vor og svuntur voru úðaðar reglulega samhliða flötunum.

Yfrsáð var í valdar flatir í vor og reyndist nýja sáningarvélin mjög vel. Lítið rask varð á grassverðinum og vel kom upp úr sáningunum. Einnig var sáð í gula teiginn á 13. braut en hann var enn mikið skemmdur eftir síðasta tímabil. Gert var við verstu sárin, sáð í teiginn og honum lokað fyrstu vikurnar af tímabilinu. Ágætlega gekk að enduheimta teiginn en okkar mat er samt sem áður að stækka þurfi teiginn svo hann haldi í þetta mikla álag sem á honum er, þar sem margir slá þar upphafshögg með járnakylfu.

Allar flatir voru sandaðar í vor og svo aftur um mitt sumar. Þær flatir sem enn höfðu ummerki götunar síðasta hausts fengu svo aukaskammt af sandi. Þó nokkrir teigar á Hvaleyrarvelli voru svo sandaðir í haust.

Í Október voru allar flatir gataðar með 12mm teinum. Er það gert til þess að hjálpa til við að koma vatni af yfirborðinu í vetur og í vor. Á nýju flatirnar okkar (12, 13, 14, 15, 16) dreifðum við svo fræjum og lífrænum efnum yfir flatirnar eftir götun. Er það gert til þess að auka hlutafall lífrænna efna í jarðveginum, sem er sendinn og frekar snauður.

Allar flatir voru úðaðar með sveppalyfjum seint í haust þegar sýkingar voru farnar að sjást í flötum. Vel gekk að stöðva þær og stefnt er að annarri úðun inn í veturinn.

Almennt viðhald og sláttur á völlunum okkar var með sama sniði og síðustu ár og sláttutíðni eftirfarandi:

Flatir – sláttur 4x í viku, völtun 3x í viku
Teigar – sláttur 4x í viku
Svuntur – sláttur 4x í viku

Brautir – sláttur 3x í viku
Brautarsvuntur – 2x í viku
Kargi – 2x í viku