Ávarp formanns

Golfsumarið var nokkuð á pari við árið 2021 með 35.716 leikna hringi á Hvalareyrarvelli en 8.711 leikna hringi á Sveinskotsvelli. Meðlimum fjölgaði um 33 á árinu og vorum við orðin 1.661 talsins í lok árs. Þar af eru 361 félagar skráðir á Sveinskotsvöll.

Til þess að tryggja það að þeir félagar sem eru skráðir til leiks séu raunverulega að spila og stemma stigu við því að fólk sem á bókaða rástíma mæti ekki á teig var farið í átak í byrjun sumars þar sem eftirlitsmenn lögðu mikla áherslu þessa þætti. Við teljum að félagsmenn hafi klárlega orðið meðvitaðri um hvernig meðferð kennitölu þeirra er háttað og félagar sem mættu ekki í rástíma fengu senda viðvörun og áttu yfir höfði sér skráningarbann yrði ekki bætt úr. Við teljum að þetta átak hafi skilað sér vel og munum við halda áfram að leggja áherslu á þessa þætti.

Guðmund Friðrik Sigurðsson

Við kvöddum góðan félaga og fyrrverandi formann Keilis á árinu en Guðmundur Friðrik varð bráðkvaddur við golfiðkun á Spáni. Hans verður saknað í félagsskapnum enda vann hann alla sína tíð ötullega að málefnum golfsins bæði hjá Golfklúbbnum Keili og Golfsambandi Íslands.

Framkvæmdir á árinu

Framkvæmdir voru í fullum gangi á árinu. Opnað var inn í nýja 12. flöt ( verðandi 18. flöt ) í byrjun júní og er hún einstaklega vel heppnuð. Vinna við sameiningu 10-11 ( verðandi 16.braut ) er komin vel á veg, en opnun hennar hefur verið seinkað til ársins 2024. Vinna við verðandi 17. braut hefur þrátt fyrir ýmsar hindranir gengið vel þannig að við sjáum loks fyrir endann á þessum framkvæmdakafla. Mikil orka hefur farið í nýframkvæmdir síðustu ár en við sjáum fram á betri tíma þar sem hægt verður að sinna vellinum sjálfum í heild sinni betur. Á Sveinskotsvelli var svo unnið að uppsetningu á langþráðu sjálfvirku vökvunarkerfi nú í haust sem mun breyta gæði vallarins til framtíðar verulega.

Áhaldahús

Vinna við hönnun á nýju áhaldahúsi hófst á árið 2021 og áttu framkvæmdir að hefjast fljótlega á árinu 2022. Einhver áhöld voru um lóðanúmerið sjálft og því tafðist það úr hófi fram að fá framkvæmdaleyfi. Það gekk svo loks upp á endanum og kom í hús núna í lok nóvember. Getum við því farið á fullt í framkvæmdir og er stefnt að því að reisa húsið fyrir vorið. Þetta mun bæta aðstöðu fyrir geymslu á vélaflota auk starfsmannaaðstöðu verulega.

Framkvæmdir í golfskála

Farið var í breytingar á allri salernisaðstöðu golfskálans s.l. vetur þau endurnýjuð að fullu auk þess sem búningsklefar og skrifstofur voru teknar í gegn. Við teljum að þessar breytingar hafi tekist vel og breytt yfirbragði skálans og ásýnd þegar komið er inn verulega til betri vegar.

Vinnuhópur um breytingu á golfskála

Vinnuhópur um breytingu á golfskála tók til starfa nú i haust undir formennsku Tryggva Jónssonar frá Mannviti. Vel hefur miðað hjá vinnuhópnum og er sú vinna í fullum gangi. Það verður send út sérstök skoðanakönnun til klúbbmeðlima til að kanna hvaða breytingar eða þarfir brenna helst á fólki til að fá sem mesta breidd. Stefnt er á að kynna niðurstöður starfshóps um vorið 2023.

Góður árangur afrekskylfinga

Kylfingar Keilis unnu 4 Íslandsmeistaratitla og 2 stigameistaratitla.

Þórdís Geirsdóttir varð Íslandsmeistari kvenna 50+ 8 árið í röð auk þess að verða stigameistari í flokki 50+ án forgjafar.

Elva María Jónsdóttir varð tvöfaldur íslandsmeistari í höggleik og holukeppni 12 ára og yngri auk þess að vera stigameistari stelpna í flokki 12 ára og yngri. Máni Freyr Vigfússon varð Íslandsmeistari í holukeppni 12 ára og yngri og í öðru sæti sem stigameistari í flokki 12 ára og yngri.

Á Íslandsmóti liða 14 ára og yngri var stelpusveitin svo hársbreidd frá Íslandsmeistaratitli og í liðakeppni 50 ára og eldri enduðu Keiliskonur í öðru sæti eftir æsispennandi bráðabana.

Þrír kylfingar frá Keili tóku þátt í verkefnum á vegum GSÍ árið 2022, þau Daníel Ísak Steinarsson, Hjalti Jóhannsson og Markús Marelsson og í landslið eldri kylfinga voru valin þau Þórdís Geirsdóttir, Anna Snædís Sigmarsdóttir, Ásgeir Jón Guðbjartsson og Halldór Ásgrímur Ingólfsson.

Atvinnumenn úr röðum Keilis eru þau Axel Bóasson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir.

Nýr veitingasali

Hafsteinn Hafsteinsson tók við rekstri veitingasölu á vormánuðum og hefur það samstarf gengið mjög vel, boðið var upp á ýmsar nýjungar í sumar þar sem til dæmis var hægt að panta veitingar þegar komið var á 9. braut og á 18. braut. Einnig er hægt að panta veitingar og greiða við borðið.

Sú breyting var gerð að reksraraðili leigir nú aðstöðuna allt árið um kring og sér um salarleigu og annað utan hins hefðbundna golftímabils sem við teljum koma vel út. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við Hafstein og hans fólk á komandi ári.

Íþróttastarf

Sem fyrr þá fer Karl Ómar Karlsson fyrir íþróttastarfinu. Hann er íþróttakennari að mennt og PGA golfkennari en við hlið hans starfar Jóhann Hjaltason ásamt öðrum kennurum. Þrátt fyrir að gert hafi verið ráð fyrir auknu framlagi til íþróttastarfs í síðustu fjárhagsáætlun gekk erfiðlega að fá golfkennara til starfa en það virðist vera vaxandi vandamál hér á íslandi. Búið er að styrkja hópinn verulega fyrir komandi vetur og erum við vonandi betur í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem fyrir liggja. Við sjáum að það eru sterkir kylfingar að vaxa upp núna og brýnt að halda áfram vel á spöðunum fyrir komandi ár.

Áfram er lögð áhersla á að allir geti notið sín innan starfsins.

Félagsstarf

Meistaramót gekk vel og tóku 336 kylfingar þátt í ár í tuttugu flokkum. Þau Anna Sólveig Snorradóttir og Rúnar Arnórsson eru klúbbmeistarar 2022.

Veðrið vann ekki með okkur og lentu nokkrir flokkar í því að blása þurfti af einn keppnisdag sem er auðvitað alltaf bæði erfitt og leiðinlegt en samt sem áður óhjákvæmilegt.

Aftur var beitt fyrirkomulagi um niðurskurð auk þess sem verðlaunaafhendingar fara fram um leið og flokkarnir hafa lokið leik, fyrir utan 1. flokk og Meistaraflokk. Þetta form hefur gefist vel og munum við halda áfram að vinna með það á komandi ári. Stemmningin var að vanda góð og Keilisfólk skemmti sér vel eins og allaf á þessu viðburði.

Már Sveinbjörnsson var áfram formaður starfs eldri kylfinga en með honum störfuðu þau Björk Ingvarsdóttur, Erna Jónsdóttir, Lucinda Grímsdóttir og Gunnar Hjaltalín. Mótaröðin var með sama sniði og áður fyrir utan að nú félagar niður í 65 ára og eldri boðnir velkomnir í stað 67 ára og eldri áður. Veglegt lokahóf var svo haldið um miðjan september.

Elín Soffía Harðardóttir var formaður kvennanefndar en með henni störfuðu þær Kristín Geirsdóttir, Nína Edvardsdóttir, Rósa Lyng Svavarsdóttir, Sigrún Einarsdóttir og Sigurlaug Jóhannsdóttir.

Það var mikið að gera í kvennastarfinu eins og alltaf. Spiluð voru 8 mót á mótaröðinni auk þess sem hin árlega haustferð Keiliskvenna í Borgarnes var fullbókuð. Kvennanefndin hefur haft veg og vanda af glæsilegu kvennamóti s.l. ár í samstarfi við fyrirtæki í Hafnarfirði og var það haldið 6.ágúst. Fullt var í mótið og megum við vera stolt af þessu flotta framtaki Kvennanefndar.

Jónsmessan var með stærsta móti í ár og svo var árinu slúttað með Bændaglímu. Góð þáttaka var í báðum mótum og mikil stemming.

Að lokum vil ég þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komu að starfi Keilis á einn eða annan hátt á árinu og hjálpuðu til við að gera starfsemi félagsins sem veglegasta en án þeirra væri ekki hægt að reka þessa starfsemi.

Takk fyrir árið,
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir
Formaður