Framkvæmdir

Nýframkvæmdir

Unnið var í þremur brautum á árinu. Teigasvæði á verðandi 18. braut (núverandi 12.) og verðandi 16. braut (sameining 10. & 11. brauta) og svo 17. Braut (par 3)

Verðandi 18. (núverandi 12.)

Ekki tókst að sá í ný teigasett og umhverfi þeirra síðasta haust. Þegar ráðast átti svo í það verkefni síðsumars var tekin ákvörðun um að breyta svæðinu. Umhverfi teiganna var þá breytt og svæðið stækkað. Einnig var ákveðið að leggja mikla vinnu við efsta hluta svæðisins þar sem gönguleiðin kemur til með að vera. Veðrið var okkur ekki hliðhollt í þessum framkvæmdum og þurfti oftar en einu sinni að bæta efni á svæðið, sem þá hafði fokið í burtu. Gönguleiðin ofan við teigana markar nýja stefnu klúbbsins í gönguleiðum á grasi, þar sem komið var fyrir sjálfvirku vökvunarkefi í leiðina.

Sáð var í teigana og umhverfi þann 7. september. Sáningin tókst vel og voru dúkar teknir af eftir um 14 daga. Á meðan á spíruninni stóð kom lægð sem varð til þess að mikil selta komst inn á svæðið. Þrátt fyrir að hafa skolað því fljótt niður þá hafði seltan slæm áhrif á nýspírað grasið, sem náði sér ekki aftur á strik. Fróðlegt verður að sjá hvernig veturinn fer með svæðið en hætt er við því að miklu efni muni skolast til og vinna þurfi svæðið að hluta til aftur í vor.

Verðandi 16. (sameining 10. &11.)

Vel gekk að safna efni á svæðið síðasta vetur. Ljóst var að við þyrftum amk 9000m3 af efni á svæðið til að ná brautinni í rétta hæð. Þegar því markmiði var náð,fengum við gröfumann að utan til þess að slétta úr, flokka og koma efninu í réttar hæðir. Í það var fenginn Simon Broadley, sem áður hafði unnið með okkur við mótun nýju 12. flatarinnar.

Eftir að efnið hafði verið mótað snemma í vor, var hafist handa við að koma inn rótarlagi.

Rótarlagið var svo geymt á svæðinu frameftir sumri, þangað til tími gafst til þess að vinna svæðið frekar. Í framhaldinu var efninu dreift jafnt yfir svæðið (ca 15cm lag) og vökvunarbúnaður lagður.

Sáð var í svæðið þann 5. ágúst og tókst vel til. Dúkarnir voru svo teknir af 17 dögum síðar. Þegar festa var komin í jarðveginn var svæðið svo slegið reglulega með slátturóbot. Líkt og á teigunum á verðandi 18. kom mikið magn seltu yfir svæðið með lægðum snemma í haust, sem varð til þess að bakslag kom í gróandann. Rótarvöxtur var þó það mikill að litlar líkur eru á stórvægilegu tjóni á undirlagi, en sennilega þarf að sinna svæðinu vel í vor til þess að ná aftur upp almennilegri grasþekju.

Seinni hluti verkefnis okkar í ár við verðandi 16. brautina var svo að bæta núverandi 11. braut. Brautin sem alltaf hefur verið óslétt, fannst okkur þarfnast bætinga, jafnt sem hægri hlið flatarinnar, sem einnig þurfti að tengja við teigana á verðandi 17. braut (par 3). Eftir síðasta mót sumarsins lokuðum við því 10. 11. og 12. braut á dagvinnutíma og ákváðum að nýta haustið til bætinga þessa svæða, svo lengi sem veður leyfði.

Byrjað var á hægri hlið flatar. Gras var tekið af svæðinu og það endurmótað. Fyllt var upp í glompur og svuntan tengd saman við teigana á verðandi 17. braut. Vel tókst til og var svæðið tyrft þann 26. október. Í framhaldi af tyrfingunni var hafist handa við lagfæringar á brautinni sjálfri. Byrjað var á því að skafa rótarlag af og koma því frá. Slétt var úr misfellum og svæðið í heild endurmótað. Vel gekk að endurmóta og höfðum við náð um 1.100m2 svæði í byrjun nóvember. Öruggast þótti okkur að panta í það torfþökur og loka að mestu því sári sem komið var. Þar sem veður hélt áfram að leika við okkur héldum við áfram að slétta brautina. Ekki oft sem hægt er að vinna að svona framkvæmdum og halda raski á golfleik svo litlu. Við munum því halda áfram að stækka það svæði sem slétt verður úr á brautinni og því sári svo lokað með þökum í vor.

Lítið var um aðrar framkvæmdir í sumar en má þá helst nefna að fyllt var upp í fremri glompuna á 15. braut og tyrft þar yfir. Vel tókst til og eru starfsmenn sammála um að framkvæmdin hafi verið breyting til batnaðar.

Næstu ár mun fara meira fyrir öðrum framkvæmdum en fyrir liggur að breytinga sé þörf á nokkrum stöðum þeirra brauta sem byggðar hafa verið síðustu ár. Einnig stendur til að bæta grasstíga á seinni 9 holum vallarins og endurbyggja helstu gönguleiðir með réttu undirlagi og sjálfvirku vövunarkerfi.

17. braut (par 3 ný hola)

Þrátt fyrir að mikil vinna hafi verið unnin við gerð 17. brautar árið 2021 kom svæðið því miður ekki jafn vel undan vetri og vonast var til. Ástæða þess var fjöldi og styrkur lægða sem skall á okkur síðasta haust (september/október). Mikið efni skolaðist til og var til að mynda öll vinstri hlið flatarsvæðisins ónýt. Vinna við eftirfylgni var því meiri í ár en vonast var til. Mikil reynsla hefur þó áunnist við slíka eftirfylgni hjá okkur síðustu árin og gríðarlega miklu máli skiptir að rétt sé haldið á spöðunum. Rúnar Geir sem að mestu hefur séð um eftirfylgni framkvæmda hjá okkur, eyddi um helmingi vinnustunda sinna við eftirfylgni framkvæmda á 17. braut í sumar, með ótrúlegum árangri.

Eins og síðustu ár fór umtalsverður hluti vinnu okkar í sumar í nýframkvæmdir. Mikil reynsla er komin á slíkar framkvæmdir hjá okkur og með góðri verkaskiptingu verður vinna okkar sífellt hnitmiðaðri og árangur betri. Hér að neðan eru svo tölulegar upplýsingar um vinnu við nýframkvæmdir árið 2022.

Verðandi 18. (núverandi 12.) – Samtals vinnustundir árið 2022 = 219 (19%)
Verðandi 16. braut (sameining 10. &11.) – samtals vinnustundir = 483 (41%)
Verðandi 17. braut (par 3) – samtals vinnustundir = 467 (40%)

Samtals vinnustundir við nýframkvæmdir árið 2022 voru 1169 eða 20% af öllum skráðum verkum í sumar.

(tölur eru frá 10. nóvember 2022)

Sveinskotsvöllur

Teigar á Sveinskotsvelli hafa verið til mikilla vandræða síðustu ár. Með mikilli aukningu golfleiks á vellinum og breytingu vallarins, hafa teigarnir ekki náð að halda í við álagið. Lengi hefur staðið til að klára vinnu við lagningu sjálfvirks vökvunarkerfis í Sveinskotsvöllinn, og markmiðið þá alltaf verið að fá slíkt kerfi í alla teiga og allar flatir. Erfitt hefur reynst að finna tíma til verksins, sem er umtalsvert. Eftir að hafa fylgst með teigunum á vellinum hraka síðstu tvö árin þótti okkur ekki boðlegt að bíða lengur.

Vegna anna okkar starfsmanna í nýframkvæmdum og viðhaldi, fengum við Svein Steindórsson hjá Flux vökvunarkerfislausnum til þess að vinna verkið fyrir okkur í haust. Verkið gekk vel og tók um þrjár vikur og hefur

Sveinskotið er nú með mjög fullkomið vökvunarkerfi í öllum teigum og flötum. Með þessari breytingu opnast möguleikar á breyttum viðhaldsvenjum á Sveinskotsvelli.

Útseld vinna

Útseld þjónusta var með svipuðu móti og síðustu ár. Helstu viðskiptavinir klúbbsins eru sem fyrr ÍTH og ÍTR. Sláttur og önnur sérverkefni að Kaplakrika, Ásvöllum og Hamranesi fyrir ÍTH og sandanir, gatanir og úðanir fyrir ÍTR.

Klúbburinn sá einnig um slátt á púttflötum við Hrafnistu. Þessar púttflatir eru í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík og voru flatir slegnar og holum skipt út einu sinni í viku yfir sumartímann.

Brýningar gengu ágætlega fyrir sig síðasta vetur en mikið af keflum komu seint inn til brýningar sem olli því að þjónustan dróst á langinn hjá okkur. Með nýju þjónustukerfi höfum við nú komið í veg fyrir að slíkt komi fyrir í framtíðinni.

Auk ÍTR, þjónustuðum við áfram nokkra klúbba utan höfuðborgarsvæðisins, þá aðallega við götun og söndun. Knattspyrnusvæði Borgarness og knattspyrnusvæði á Suðurnesjum má þar helst nefna.

Nýtt æfingasvæði að Ásvöllum sem klúbburinn sáði í haustið 2021 kom vel út í sumar og mun það verða klárt til notkunar næsta vor.

Vélakaup og aðstaða starfsmanna

Til stendur að reisa stálgrindarhús undir vélaflotann okkar. Vonuðumst við eftir því að byrja á þeirra framkvæmd á síðasta ári en hefur ferlið því miður dregist á langinn. Framkvæmdir hófust þó nú í haust við að jarðvegsskipta fyrir sökkul. Stefnt er að þetta hús verði reist fyrir vorið ef allt gengur eftir. Verið er að vinna að samstarfssamning við Hafnarfjarðarbæ um verkefnið og er því ekkert að fyrirstöðu enn að þetta verkefni verði komið á fullt núna í vetur og tilbúið fyrir vorið. Þetta mun breyta gífurlega þeirri aðstöðu sem Keilir þarf til að halda utan um vélaflotann okkar og starfsmenn sem hafa alltof lengi búið við mjög þröngan húsakost. Klúbburinn hefur þurft að leiga geymsluhúsnæði undir vélaflotann til þess að eðlileg starfsemi geti átt sér stað í núverandi húsakosti.

Vélafloti klúbbsins hélst að mestu óbreyttur milli ára. Töluvert hefur verið endurnýjað af sláttuvélum síðustu ár og hefur stefnan verið sú að bíða eftir frekari framþróun á slátturóbotum og rafmagnsvélum áður en farið yrði í stærri kaup. Nú erum við farnir að sjá lausnir í sjálfvirkum sláttuvélum sem telja má fýsilegan kost í framtíðinni og koma fyrstu slíku vélarnar á markaðinn hér árið 2024. Spennandi tímar framundan í þeim efnum.

Nú þegar haustin eru farin að lengjast hjá okkur höfum við verið að reka okkur á það að þau verkefni sem við getum sinnt á síðasta ársfjórðungi, eru mörg hver háð öflugri dráttarvél. Við eigum eina slíka ásamt annarri minni dráttarvél. Skoða má hvort klúbburinn yrði betur settur með tvær af stærri gerðinni og losa okkur við þá minni. Verk sem nefna má að háð eru öflugum dráttarvélum eru t.d. gatanir, sandanir, sláttur háa kargans, losun heys eftir slátt karga og efnisflutningar til og frá framkvæmdasvæða.

Stærstu kaup ársins voru ný jarðvegsgrafa. Grafan sem er 8 tonn að þyngd af gerðinni JCB hafði áður verið í okkar höndum en klúbburinn hefur leigt hana við framkvæmdir á 17. flöt og svo aftur við efnisdreifingu á verðandi 16. braut. Grafan sem klúbburinn átti fyrir er 3 tonna Komatsu grafa sem ræður illa við verkefni af þeirri stærðargráðu sem við höfum verið að takast á við síðustu ár og sjáum fram á að haldi áfram næstu árin. Einnig er sú grafa komin vel til ára sinna og verður hún seld á næstu misserum. Mikil ánægja hefur verið með kaupin á gröfunni og er hún enn í fullri vinnu við endurmótun 11. brautar, nú í lok nóvember.

Í vor keypti klúbburinn nýja yfirsáningarvél sem leysir af hólmi gamla skurðarvél sem frekar hefur verið til vandræða en gagns síðustu árin. Einnig voru keyptir fjórir slátturóbotar sem notaðir voru við slátt eftir nýsáningu, annars vegar á nýju æfingasvæði að Ásvöllum og hinsvegar við sameiningu 10. og 11. brauta. Þessir slátturóbotar munu svo nýtast við slátt á öðrum svæðum valla okkar á næstu árum.

Nýjungar

Síðastliðin ár hafa starfsmenn klúbbsins verið duglegir að heimsækja velli erlendis. Saman og í sitthvoru lagi. Þegar heimsóttir eru vellir í hæsta gæðaflokki eru alltaf hlutir sem maður uppgötvar og bætir í hugmyndabankann. Úr þessu safni langar okkur að innleiða ýmsa hluti hjá okkur á Keili og létum til skarar skríða með nokkra af þeim í vor.

Það sem okkur fannst áberandi samnefnari með þeim völlum sem við viljum bera okkur saman við, eru manngerðir hlutir á völlunum. Undantekningalaust reyna slíkir vellir að halda manngerðum hlutum í lágmarki. Vegna fagurfræðilegra sjónarmiða, vinnusparnaðar og umhverfisvitundar.

Fjarlægðarmerkingar

Fjarðlægðarhælarnir sem staðið hafa vaktina hjá okkur í allmörg fengu loks frí árið 2021. Hælarnir sem voru í jaðri brauta, með 50 metra millibili voru iðulega skakkir og fór mikill tími í að rétta þá við, einungis til að leyfa þeim að síga aftur til hliðar. Hælana þurfti einnig að mála og bera á, að minnsta kosti annað hvert ár.

Þar sem við búum svo vel að hafa vatnsúðara á brautum ákváðum við að skipta hælunum út fyrir merkingar á úðahausum í brautum. Með þessu skiptum við á Hvaleyrarvelli út um 26 fjarlægðarmerkingum fyrir tæplega 100. Nýju merkin sem eru með um 20 metra millibili á brautunum eru einnig föst á hausunum og hreyfast því aldrei til, þurfa ekkert viðhald og bæta heilt yfir ásýnd vallarins.

Púttstangir

Líkt og aðrar nýjungar kynntar á árinu, leysa púttstangirnar á æfingaflötunum fjölþættan vanda. Áður höfðum við um 48 skornar holur á æfingaflötum okkar. Erfitt er fyrir starfsfólk vallarins að skipta nægilega ört út svo miklum fjölda hola og afleiðingin sú að mikið slit myndast í kringum þær. Eftir að hafa séð stangirnar, sem stungið er í grassvörðinn, víða, þótti okkur þess virði að prófa það á Keili. Kostur stanganna er sá að tími sparast til annarra verka, slit í kring um holur heyrir sögunni til og nýting flatanna mun meiri. Auk þess er kostur fyrir þann sem æfir sig að geta staðsett skotmarkið í takt við púttin sem æfa á þá stundina.

Fyrir þá sem vilja svo pútta í holu ákváðum við að skilja eftir nokkrar holur á hverri flöt fyrir sig sem hægt er að skipta örar út og halda gæðunum í hámarki.

Lokaorð Vallarstjóra

Heilt yfir eru starfsmenn mjög ánægðir með sumarið. Þrátt fyrir vonbrigði með veður tókst vel að halda spilaflötum vallanna í góðu standi yfir allt tímabilið. Starfsmenn eru enn á fullu við útistörf þann 21. nóvember við framkvæmdir á 11. braut, slátt á villtum svæðum, gatanir ofl. Þó svo vel gangi við vinnu má gera ráð fyrir þvi að starfsmenn komist fljótlega í sumarfrí og mæti endurnærðir til leiks á nýju ári, með dug til áframhaldandi framfara fyrir klúbbinn okkar og vellina.

Starfsmenn þakka fyrir gott golfsumar og hlakka til áskoranna næsta tímabils.

F.h. vallastarfsmanna
Guðbjartur Ísak Ásgeirsson