Ávarp formanns
Fordæmalaust er líklega eitt mest notaða orð ársins og er það á margan hátt lýsandi fyrir starfsemi Kelis á árinu.
Árið fór vel af stað, mikil ásókn í æfingasvæðið sem jókst samfara hertum takmörkunum en það var allt reynt til þess að halda úti starfsemi innan þessa ramma sem íþróttafélög fengu. Um páskana urðum við svo að játa okkur sigruð og skellt var í lás í Hraunkoti. Hægt var að opna völlinn á eðlilegum tíma í Maí en leikreglur voru breyttar þar sem ekki mátti taka flaggstöng úr holu, ekki mátti raka glompur né skiptast á skorkortum. Þetta fyrirkomulag gekk bara þokkalega vel og flýtti klárlega fyrir leik þannig að það var ekki alslæmt. Aftur urðum við að láta í minni pokann þegar okkur var gert að loka golfvellinum í haust, veðrið á þessum tíma var með besta móti og kylfingar því að vonum ósáttir við að geta ekki nýtt blíðuna til að spila.
Algjör sprenging varð í golfíþróttinni í ár en meðlimum fjölgaði um 162 ár árinu, þar af um 102 á Hvaleyrarvelli og erum við komin nálægt þolmörkum í fjölda meðlima þar. Það hefur lengi verið notað sem viðmið að kylfingar á Hvaleyrarvelli skulu ekki vera fleiri en 1.100 og er það ramminn sem enn er unnið með að því sögðu að talningin á við um fullgreiðandi félaga þ.e .27 ára og eldri. Það er því skýrt markmið stjórnar að halda félagafjölda í jafnvægi og innan marka þannig að gæði aðildar minnki ekki. Hafa ber í huga að síðasta ár fór fjöldi spilaðra hringja á Hvaleyrarvelli úr 31.645 í 40.246 hringi sem er gríðarleg aukning og ólíklegt að við munum sjá slíkan fjölda á næsta ári ef að lífið fer að færast í eðlilegra horf. Völlurinn var fullur frá morgni til kvölds og voru kylfingar byrjaðir löngu áður en rástímaskráning hófst á morgnana og því gríðarlegt álag á vellinum og starfsmönnum. Við fengum þó liðsauka með auknum fjölda sumarstarfsmanna frá Hafnarfjarðarbæ og hjálpaði það mikið til.
Breyttar áherslur í vallareftirliti
Meiri þungi var settur í vallareftirlit á árinu og teljum við það hafa skilað sér mjög vel. Eftirlitsmenn voru sýnilegir og vel með á nótunum sem gerði það að verkum að þrátt fyrir ótrúlegt álag tókst í flestum tilfellum að halda leikhraða nokkuð góðum í allt sumar og endurspeglar viðhorfskönnun Keilis ánægju kylfinga með eftirlitið í sumar.
Framkvæmdir samkvæmt áætlun
Það var helst á döfinni í sumar að 16 braut (verðandi 13 braut) var opnuð þann 18. ágúst við mikinn fögnuð og tel ég að allir geti verið sammála um að breytingin á henni er einstaklega vel heppnuð og er hún frábær viðbót við okkar flotta golfvöll. Framkvæmdir hófust einnig á flötinni á verðandi 18. holu og á verðandi 14 braut. Gert er ráð fyrir að klára þessar framkvæmdir á árinu 2021 en lokahnykkurinn er svo sameining núverandi 10/11 brautar verðandi 16 brautar og er gert ráð fyrir að það klárist á árinu 2022 en þá hefur verið unnið á einn eða annan hátt við allar brautir Hvaleyrarhluta vallarins. Það er því til mikils að hlakka og spennandi tímar framundan.
Uppbygging hélt áfram á Sveinskotsvelli en mikil aukning varð í fjölda meðlima þar. Kláraður var rauður teigur á 7. braut og er nú unnið að því að koma sjálfvirku vökvunarkerfi á alla teiga og flatir vallarins og auka þannig gæði hans.
Félagsstarf
Meistaramót gekk frábærlega fyrir sig með metþátttöku og urðu þau Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Rúnar Arnórsson klúbbmeistarar 2020. Veðrið lék við keppendur og gekk mótið almennt vel. Vegna Covid var fyrirkomulagi verðlaunaafhendingar breytt og kom það vel út og því líklegt að sú breyting verði til frambúðar. Stemmingin var góð á mótinu og skemmti Keilisfólk sér vel að vanda í skugga takmarkana.
Það sem gerði gott mót enn betra í mínum huga var sú nýbreytni að einn kylfingur í hverju holli var ábyrgur fyrir að skrá skorið rafrænt og var því staðan hverju sinni ávallt sýnileg. Þetta skapaði mjög skemmtilega stemmningu í skála og breytti að mínu mati upplifuninni af mótinu töluvert.
Góður árangur afrekskylfinga
Kylfingar keilis unnu 7 Íslandsmeistaratitla og 4 stigameistaratitla. Guðrún Brá varð Íslandsmeistari í höggleik kvenna þriðja árið í röð auk þessa að vera stigameistari. Axel Bóasson varð Íslandsmeistari í holukeppni karla og stigameistari karla. Þórdís Geirsdóttir varð Íslandsmeistari kvenna 50+ og varð kvennasveit 50+ Íslandsmeistarar golfklúbba .
Keilir eignaðst svo í fyrsta sinn í langan tíma Íslandsmeistara unglinga 14 ára og yngri þegar Markús Marelsson vann á Hvaleyrarvelli og Inga Lilja Hilmarsdóttir varð Íslandsmeistari í höggleik19-21 árs. Keilir varð svo einnig Íslandsmeistari golfklúbba 15 ára og yngri. Þetta gefur okkur góða vísbendingu um að markviss uppbygging á barna- og unglingastarfi síðustu ára sé að skila árangri
Atvinnumenn úr röðum Keilis eru þau Axel Bóasson, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Rúnar Arnórsson en þau gátu lítið spilað vegna aðstæðna ársins en halda sínum keppnisrétti á komandi ári og óskum við þeim velfarnaðar og hlökkum til að fylgjast áfram með árangri þeirra.
Björgvin kvaddur
Björgvin Sigurbergsson sem starfað sem yfirþjálfari hjá golfklúbbnum Keili síðastliðin þrjú ár og þar á undan sem Íþróttastjóri Keilis hefur ákveðið að snúa sér að öðrum störfum.
Undir handleiðslu Björgvins hafa kylfingar í Keili komist í fremstu röð og unnið til fjölmargra Íslands-, stiga- og bikarmeistaratitla í golfi. Hann hefur einnig unnið náið með landsliðsþjálfurum og aðstoðað kylfinga við að ná markmiðum sínum á mótaröðum atvinnumanna.
Stjórn og starfsmenn Keilis þakka Björgvini samstarfið í gegnum árin og vel unnin störf og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Íþróttastarf í blóma
Mikill metnaður er lagður í íþróttastarf hjá Keili og er uppsetning starfsins fyrir næsta ár til fyrirmyndar. Áhersla er lögð á allir geti notið sín innan starfsins, hvort sem kylfingar stefna á atvinnumennsku eða langar einfaldlega að hafa gaman af golfi í góðum félagsskap og ættu allir að geta fengið þjálfun við sitt hæfi.
Öflug æfingaaðstaða orðin enn betri
Í takt við annað á árinu varð mikil aukning í notkun æfingasvæðis Keilis. Tíminn þegar Hraunkot var lokað var vel nýttur til viðhaldsvinnu og dyttað að ýmsu. Eftir langþráða bið var loks sett nýtt gervigras í Hvalalaugina og golfhermar voru endurnýjaðir. Því miður varð bið á golfboltum sem voru fastir í pöntun fram eftir sumri og því gæði þeirra orðin ansi rýr undir lokin. Nýir boltar létu svo sjá sig um mitt sumar og erum við því vel sett eins og er.
Félagsstarf
Hjörvar O Jenson leiddi áfram starf eldri kylfinga með þeim Ágústi Húbertsyni, Hallgrími Hallgrímssyni, Björk Ingvarsdóttur, Lucindu Grímsdóttur og Guðmundi Friðrik Sigurðssyni.
Mótin voru haldin á miðvikudögum og voru alls sjö mót haldin þar af eitt á Leynisvelli. Eftir mótaröð var svo haldið lokahóf og verðlaunaafhending. Er þetta starf komið í góðan farveg og hlökkum við til að sjá það eflast og dafna á komandi árum.
Matthildur Helgadóttir leiddi kvennastarfið en með henni störfuðu þær Sveinborg Bergsdóttir, Elín Soffía Harðardóttir, Sigrún Einarsdóttir, Nína Edvardsdóttir og Eva Harpa Loftsdóttir.
Mótaröðin var á sínum stað og héldu þær veglegt opið kvennamót í ágúst. Takmarkanir settu mark sitt á starfið en kom þó ekki í veg fyrir að farið yrði í árlega haustferð í Borgarnes.
Stjórnin vill þakka þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem vinna ötult starf við að gera góðan klúbb enn betri.
Tölvu- og upplýsingamál
Golfbox fór í loftið við mismikinn fögnuð félagsmanna Ýmislegt var að plaga fólk fram eftir sumri en það er oft eðli nýrra kerfa að mislangan tíma tekur að aðlagast því.
Starfsmenn klúbbsins fundu aftur á móti strax fyrir því hvað betri virkni í nýju kerfi auðveldaði starfið sérstaklega þegar kemur að mótahaldi. Rafræn skráning skorkorta sparaði líka mikin tíma og hægt var að birta úrslit nánast jafnóðum. Á næsta ári er það von okkar að með betra mætingakerfi verði hægt að auka eftirlit með staðfestum tímum og veita áminningar til þeirra sem skrá sig á rástíma og mæta ekki. Stjórn Keilis hefur lagt mikla áherslu á það við Golfbox að þessi hluti kerfis verði komin í gott lag fyrir næsta tímabil.
Með tilkomu golfbox opnaðist fyrir möguleika á að breyta reglum um rástímaskráningu. Upphaflega hugmyndin var sú að opna fyrir skráningu lengra fram í tímann en takmarka hversu marga hringi hver kylfingur gat skráð sig á háannatíma. Það er skemmst frá því að segja að bakka þurfti með þær reglur þar sem kerfið gat ekki haldið utan um þetta á viðeigandi hátt. Reglunni var því breytt og nú er hægt að skrá sig 6 daga fram í tímann og hægt að vera með 4 skráða rástíma á hverjum 7 dögum. Það var svo sérstaklega spurt um þetta í viðhorfskönnum og miðað við viðbrögð þar virðist Keilisfólk frekar vilja þetta kerfi en það sem við höfum haft undanfarin ár.
Þetta er sem sagt búið að vera viðburðarríkt ár og skemmtilegt þrátt fyrir að við höfum þurft að laga okkur að ýmsu í breyttu umverfi. Nú þegar við sjáum fyrir endann á framkvæmdum á Hvaleyrarvelli þá er undirbúningur hafin fyrir næstu verkefni en samþykkt var á síðasta stjórnarfundi ársins að halda áfram vinnu við byggingu vélageymslu sem mun leysa núverandi leiguhúsnæði af hólmi auk þess sem starfsmannaaðstaða verður stórbætt og í framhaldinu að því er gert ráð fyrir að ráðast í stækkun golfskála. Öll verkefni krefjast mikils undirbúnings enda mikilvægt að vanda vel til verka. Það eru því spennandi tímar framundan.
Takk fyrir árið,
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir
Formaður